Janúar 1935

1. janúar - Nýársdagur
Ekkert bar til tíðinda, enginn kom og enginn fór neitt. Fólkið var hálfsyfjað þegar líða tók á daginn og var snemma farið að sofa.

5. janúar
Sigurður Jónsson „snari“ kom til að fá að sjá húsið, hann kom framan af Kaupangsbakkanum, hefur verið þar æði lengi til að hjálpa „greyinu“. „Já þær eru feitar þar.“ Ég fór út að Skógum um kvöldið með „Leyndardóma Parísarborgar“ sem ég hef haft að láni æði lengi. Tafði ég þar fram að háttatíma og kom heim kl. að ganga tólf.

6. janúar
Guðmundur Snorrason keyrði fyrir Eggert og tók mjólk um kl. 3. Ágúst í Kirkjubæ kom til að fá naut. Steindór fór með það suðureftir. Ég fór út í Bryta um kvöldið og tafði þar fram að háttatíma.

7. janúar
Júlli á Bryta kom til að fá kartöflur og rófur. Kári kom til að fá eina skaflaskeifu. Vilborg[1] kom og var hér nóttina. Ásta kom og ætlar að halda hér til um tíma því nú er skóli í Ási. Þá dó Halldór Stefánsson [2]á Hlöðum, var búinn að vera veikur af berklum nokkuð á annað ár. Hann var 46 ára gamall og lætur eftir sig konu og tvö börn og einnig föður sem er kominn yfir áttrætt.

8. janúar
Vilborg var hér um kyrrt og spann allan daginn.

9. janúar
Vilborg sat og spann. Við Steindór fórum út og ofan í Neðri-Rauðalæk til að vitja um Ástu. Hún var þá sest þar að og var þar um nóttina. Svo tókum við hrossin í heimleiðinni og rákum þau heim og létum inn.

11. janúar
Ég lét inn talsvert af heyi, bæði töðu og úthey í tóttina efra. Steindór er þessa dagana við að innrétta ganginn í húsinu, spekka múrpípur og þess háttar. Vilborg spinnur látlaust nema þegar hún er að dansa o.þ.h.

12. janúar
Steindór fór í kaupstaðinn með bílnum og kom aftur um kvöldið. Ásta fór heim til sín af skólanum. Ég fór suður í Kirkjubæ með bók, „Eimreiðina“ og köttinn.

13. janúar
Við Steindór sóttum flutning á vagn ofan að afleggjara. Baldur á Neðri-Rauðalæk kom með goltótta á undir Móflekk. Júlli á Bryta kom með félagsbók, „Bjartar nætur“.

14. janúar
Tryggvi Gissurarson[3] kom tímanlega að deginum og var hér nóttina. Kom innanað með bílnum að morgninum. Ágúst í Kirkjubæ kom um kvöldið til að sækja naut. Steindór fór með það suðureftir. Ásta kom af skólanum.

15. janúar
Stefán á Steðja kom til að fá naut. Steindór fór með tarfinn úteftir. En Baldi Sigvalda fylgdi aftur en kom þó ekki heim. Tryggvi Gis fór yfir að Lönguhlíð. Anna[4] prests kom og tafði hér dálitla stund.

16. janúar
Tryggvi kom að handan og settist hér að. Um kvöldið komu þeir Kári og Ágúst í Kirkjubæ og Guðmundur Snorrason (hann keyrir nú fyrir Eggert) þeir komu um kl. 8 síðdegis og töfðu hér til kl. 11.30. Var spilað og drukkið kaffi.

17. janúar
Deildarfundur KEA á Þinghúsinu. Steindór fór þangað ásamt fleirum. Stefán bílstjóri á Neðri-Vindheimum flutti menn hér vestan að á „Boddý“-bíl[5]. Tryggvi var hér um kyrrt.

18. janúar
Tryggvi fór heim til sín á bílnum. Steindór fór suður að Bægisá til að athuga kláða sem er í fénu. Reyndist að vera kláða vart í mjög mörgum kindum og er ákveðið að baða í næstu viku. Rósant á Hamri varð sjötugur í dag. Í tilefni af því var hann beðinn að koma suður og upp í Kirkjubæ til að bora upp pontu en svo var því snúið upp í að drekka kaffi og landa. Voru þar saman komnir Bskó[6] (?), sr. Theódór, Steindór, Rósant. Ég var syðra stund um kvöldið og svo kom Eggert bílstjóri, var spilað til kl. 10. Afmælisbarnið sjötuga fékk heillaóskir en engar gjafir eða þ.h. Marinó á Rauðalæk kom, ætlaði að finna Steindór en þá var hann ekki heima. Skildi hann eftir hjá mér kr. 11.50 og Bændafélagsbréf sem hann lofar okkur að lesa.

19. janúar - laugardagur
Steindór fór suður að Kirkjubæ til að „smyrja“ kláðakindurnar. Mig vantaði eina á þegar ég lét inn. Datt mér í hug að hún hefði lent saman við Neðri-Rauðalækjaféð. Fór ég þangað og var hún þar og fór ég með hana heim. Tunglmyrkur sást lítið vegna þess að tunglið óð í skýjum. Ásta fór heim til sín af skólanum.

20. janúar
Gerður Nanna[7] fór yfir að Öxnhóli og ætlaði að gista. Kristján fékk að fylgja henni suður að Kirkjubæ, tafði hann lengur en átti að vera. Á meðan kom Hósi litli og fór hann suðureftir og sótti dreng. Júlli á Bryta kom með félagsbók, „Pistilinn skrifaði“.

21. janúar
Steindór fór suður að Bægisárhesthúsi um morguninn og út að Efri-Rauðalæk um kvöldið en um daginn var hann að spekki húsið utan. Ég var um stund við að grafa grjót hér niður í sléttunum. Gerður kom ekki heim en Ásta kom af skólanum.

22. janúar
Frídagur í skólanum í Ási vegna þess að það var verið að jarða Halldór heitinn á Hlöðum. Féð var sama sem ekkert úti.

23. janúar
Gerður kom að handan. Ágúst Kirkjubæjarráðsmaður kom eitthvað að tala um böðun. Hann sagði að Kári hefði meitt sig í gær, hafði dottið heyfylla ofan á öxlina á honum svo hann fór til Akureyrar til læknis í dag. Geiri[8] gamli kom og gisti. Sömuleiðis Árni Jónsson. Ég lét inn dálítið af heyi. Kári kom um kvöldið til að fá að vera nóttina vegna þess að svo margir eru aðkomandi í Kirkjubæ. Öxlin á honum hafði skekkst í liði og ber hann höndina í fatla.

24. janúar
Steindór var suður í Kirkjubæ til að hafa umsjón með kláðabaðinu. Geiri fór inneftir með bílnum og kom ekki aftur. Kári var skárri í öxlinni, hann fór suður eftir en kom aftur og var nóttina. Árni var hér um kyrrt en hann fór með Steindóri um kvöldið út í Rauðalæk til að hlusta á útvarpsumræður.

25. janúar – Pálsmessa, Þorri byrjar.
Kári fór suður eftir úr miðjum degi. Árni var um kyrrt og var að hjálpa Steindóri að setja listaverk í ganginn[9] en um kvöldið fóru þeir út í Rauðalæk til að hlusta á útvarp.

26. janúar
Vilborg létti akkerum og lagði af stað fram á við. Er hún búin að vera hér nærri 3 vikur og hefur alltaf setið við að spinna, rétt sofið og borðað. Mamma og Kristján fylgdu henni suður hjá Bægisá og komu við á í Kirkjubæ á heimleiðinni. Kristján fór með tvö bréf ofan í Neðri-Rauðalæk og var lengur en átti að vera[10]. Steindór og Árni voru við að setja lausholt og bita í gömlu baðstofuna[11]. Rannveig[12] í Hrauni var flutt inneftir í sjúkrabíl, það er talin vera einhvers konar nýrnaveiki sem að henni gengur.

27. janúar
Kári kom og var að fara út í Bryta og ætlar að vera þar í nótt.

28. janúar
Steindór fór í skoðunarferð út á bæi, gisti í Skógum. Kári kom utan úr Bryta og stansaði dálitla stund. Árni fór út í Bryta áleiðis heim til sín. Rétt um háttatímann kom Ármann[13] í Ási til að fá naut. Fór ég með bola og kom heim um kl. 12. Róslín í Hrauni varð bráðkvödd um kvöldið. Var alheilbrigð fram á síðustu stund. Kvartaði um í höfðinu allt í einu og var dáin á sömu mínútu.

29. janúar
Laufey[14] í Skógum kom og tafði fram undir rökkur en af því þá var farið að hvessa og sleipt var að fara þá fylgdi ég henni út fyrir ofan Ás[15]. Steindór kom heim úr skoðunartúrnum.

30. janúar
Féð var sama sem ekkert úti (rosi með hríðaréljum). Ágúst í Kirkjubæ kom. Steindór fór út að Neðri-Vindheimum til að grennslast eftir bílferð inn á Þinghús á morgun því þar á að verða þingmálafundur[16].

31. janúar
Steindór fór inn á Þinghús á þingmálafund[17]. Kári kom með eitthvað smávegis sem hann keypti í kaupstað í gær. Um kvöldið komu þeir Kári og Einar[18] og spiluðu hér til kl. 11.

 

 

[1] Vilborg Helgadóttir (1874-1960), móðir Gests á Efstalandi.

[2] Halldór Ágúst Stefánsson (1889-1935), faðir Stefáns Aðalsteins (1927-2009) bónda og hreppstjóra á Hlöðum 1952-2001. Stefán og pabbi voru fjórmenningar.

[3] Sigtryggur Gissurarson (1876-1955) hafði verið hreppsómagi á Hamri áður en Garðshornsfólkið flutti í Garðshorn. Óvíst er um tengsl hans við Garðshornsfólkið en hann kom þar oft og gisti.

[4] Anna Kristín Jónsdóttir (1919-1951) var ein af 10 börnum Jóns Hjörleifssonar sjómanns og Margrétar Ólafíu Runólfsdóttur. Hún var í fóstri hjá prestshjónunum á Bægisá í nokkur ár en óvíst er um tengsl þeirra við foreldra Önnu. Hún giftist til Mexíkó, fékk þar nafnið Cashbough.

[5] Boddý-bílar nefndust vörubílar með tréhúsi með sætum á pallinum. Tíðkuðust fram undir 1960 eða lengur, stórhættuleg farartæki.

[6] Átta mig ekki á hver Bskó var, hugsanlega Benedikt skósmiður en hann var þó aðallega söðlasmiður.

[7] Gerður Nanna Sigurgeirsdóttir (1919-1992) systir Sigmundar í Ásgerðarstaðaseli, "Simba í Seli". Ekki hefur komið fram hvenær hún kom eða til hvers en hún hefur dvalið í Garðshorni smátíma.

[8] Sigurgeir Sigurðsson (1965-1935) frá Ásgerðarstaðaseli, faðir Gerðar Nönnu. Hann lést seinna þetta ár.

[9] Hér er löngu flutt inn í nýja húsið en það er þó ekki fullklárað því að Árni og Steindór hafa verið að setja loftlista frekar en gólflista í ganginn.

[10] Það hefur snemma sótt í það að Kristján væri meira að heiman og lengur en föður hans þótti við hæfi.

[11] Eins og fram hefur komið fékk gamla baðstofan að standa lengi, reyndar fram undir 1960, en var líklega fyrst og fremst notuð sem geymsla, a.m.k. var það svo seinni árin.

[12] Rannveig Stefánsdóttir (1876-1935) var dóttir Stefáns Bergssonar sem bjó á Efri-Rauðalæk og Þverá. Hún var elsta systir Bernharðs alþingismanns og þeirra systkina. Róslín Berghildur (1897-1935) dóttir hennar var gift Agli Tómassyni sem áður hefur komið við sögu. Þær mæðgur, Rannveig og Róslín, dóu báðar þetta ár.

[13] Ármann Þorsteinsson (1903-1987) bjó í Ási 1933-1935 og síðan á Þverá. Anna ljósmóðir var kona hans, dóttir Sigurjóns sem hafði lengi búið í Ási áður en hún tók saman við Ármann. Sigrún hálfsystir Önnu giftist Kára bróður Ármanns.

[14] Laufey Sigrún Haraldsdóttir (1907-1957) var dóttir Haraldar organista á Efri-Rauðalæk og þegar þarna var komið sögu kona Eiríks Stefánssonar kennara, amma Eiríks söngvara Haukssonar og þeirra bræðra.

[15] Á þessum tíma voru Skógar uppi á hjallanum ("Gömlu Skógar") og þess vegna fylgdi pabbi henni út fyrir ofan Ás.

[16] Þingmálafundir eða hreppsfundir tíðkuðust lengi. Þar komu hreppsbúar saman og kusu hreppsnefnd og réðu ýmsum málum til lykta.

[17] Eins og svo oft fór Steindór á fundinn en pabbi var eftir heima í bústörfunum.

[18] Ekki liggur fyrir hver þessi Einar var en varla hefur hann verið vinnumaður í Kirkjubæ ásamt Ágústi.