Október 1936

Október 1936

1. október
Dráttarvélin var í ólagi svo Jakob fór inneftir með stykki úr henni en kom aftur um miðjan dag og vann stund seinnipartinn.

2. október
Jakob vann með vélinni, fyrst hér heima og svo suður og niður í mó. Pabbi fór með lömbin sín út í Bryta og ætlar Steini að reka þau með sínu til Akureyrar. Ég hjálpaði pabba úteftir. Steingrímur á Rauðalæk var hér við að grafa. Kristján fór ofaneftir til þess að biðja hann.

3. október
Pabbi fór inneftir og kom ekki aftur. Steingrímur var hér og kláruðum við að grafa fyrir þvaggryfjunni. Kristján var úti í Bryta af því Jóhanna var ein heima og svo fór ég úteftir til að mjólka um kvöldið. Jakob fór heim.

10. október – laugardagur
Á mánudaginn voru 3. göngur og vorum við þá í kindaþvæli. Á þriðjudag fór Steindór inneftir með 22 lömb á bíl. Stefán keyrði og flutti til baka sement og járn. Júlli á Bryta var hér í vinnu og byrjuðum við að steypa veggi að þvaggryfjunni. Á miðvikudaginn var Júlli hér og vorum við þá að steypa og sömuleiðis á fimmtudaginn. Þá um morguninn kom hingað stúlka sem ætlar að verða hér eitthvað. Hún heitir Guðrún Hinriksdóttir[1]. Á föstudaginn kláruðum við að steypa veggina og var Júlli hér við það. Það var keyrt heim taði og við komum vélunum fyrir út og niður í hesthúsi. Einnig hjálpuðum við Pétri á Rauðalæk til að handsama folald upp í rétt.

11. október
Þá um kvöldið kom Númi og ætlar hann að verða hér einhverja daga. Á mánudaginn var smaladagur og var ég við þess háttar drasl og bólusótti á Efri-Vindheimum og Rauðalæk en hinir voru að slá frá steypunni og þess háttar.

18. október – sunnudagur
Þá steyptum við plötuna yfir þvaggryfjuna. Á föstudag var slátrað 9 ám og 6 lömbum til heimilisins. Í gær vorum við Númi að flytja mold við hlöðuna. Í dag fóru pabbi og mamma út í Bryta. Steindór fór ofan að Rauðalæk. Guðbjörn kom og Fríða í Kirkjubæ. Steindór fór suður í Kirkjubæ.

25. október – sunnudagur
Sl. mánudag var rekið saman. Kristján fór með kindur út í Bryta. Á miðvikudag kom Steini á Bryta eftir beiðni og skaut hest og kú sem lagt var hér heima. Það var Brúnn og Flóra, hún viktaði 280 pd en Brúnn viktaði 432 pd. Á fimmtudag fór Steindór inneftir með kjöt og húðir. Hann gisti á Laugalandi um nóttina og skoðaði svo á bæjunum suður að Rauðalæk á föstudag. Á föstudag fór Gígja um kvöldið á samkomu yfir að Náströnd. Í dag fór Kristján í afmæli niður að Hamri og gisti. Kári fór út í Bryta og gisti.

 

 

[1] Guðrún Þorbjörg Hinriksdóttir (1917-2009) fædd í Hjaltadal, síðar húsfreyja í Reykjavík og Hafnarfirði.