Desember 1943
1. desember
Ég fór ekki inneftir af því þetta er hátíðisdagur. En svo fór ég suður í Bægisá og lagaði ofninn í kirkjunni og kveikti upp í honum. Kristján ætlaði með Snata til inngjafar en hann fannst þá hvergi. Guðbjörn, Hósi og Siggi komu í afmælið hans Kristjáns.
2. desember
Ég fór inneftir og varð að samkomulagi að hætta við það í bili og svo tók ég jólakerti, bökunardropa og annað þess háttar og fór heim um kvöldið.
3. desember
Við Kristján vorum um stund við að moka upp úr skurði suður og niður á túni. Svo fórum við um kvöldið ofan í Rauðalæk með sýrugeymi í hleðslu og svo fórum við upp í Efri-Rauðalæk til að finna Hallgrím. Bjarni tapaði Brytaánum, fór úteftir og hafði þrjá en hinar vantar.
4. desember
Við Kristján mokuðum upp úr skurðinum um stund. Bjarni leitaði að ánum út í Bryta en fann þær ekki. Steindór kom heim. Kristján sótti sýrugeymi ofan í Rauðalæk.
5. desember
Steindór smíðaði handrið við útidyratröppurnar og svo fór hann með mjólkurbílnum sem tók mjólk kl. að ganga tvö. Kristján fór í afmæli ofan í Rauðalæk og svo fór hann til Akureyrar til að horfa á leik, „Ævintýrið“[1]. Guðfinna fór ofan í Hamar. Ég fór með Bjarna til að leita að ánum og fann ég þær uppi í Bratta.
6. desember
Hallgrímur kom og var að leita að kindum. Um kvöldið fórum við út í Bryta, ég, Bjarni og Kristján og spiluðum fram um kl. 12. Ingi kom til að sækja rollu sem hann átti hér.
7. desember
Ingi á Rauðalæk kom til að sækja kindur. Við Guðfinna fórum suður í Syðri-Bægisá með bækur. Kristján fór í Kirkjubæ. Bjarni ætlaði suður í Kirkjubæ með hnakk í aðgerð en þegar hann var að fara á stað varð hann var við draugagang í fjósinu og leit þangað inn, þá var Snotra borin og hann varð svo að taka á móti kálfinum og slaufa ferðinni.
8. desember
Mamma fór suður í Bægisá til að þrífa kirkjuna. Steini á Bryta kom og ég fór með honum suður í Bægisá til að klára að setja niður ofninn í kirkjuna. Bjarni fór suður í Kirkjubæ með hnakk til aðgerðar.
9. desember
Ingi á Rauðalæk kom til að sækja kindur.
10. desember
Þá kom Skarpéðinn Bjarnason[2] á fólksbíl og tafði í tvo tíma. Svo fórum við, ég, Bjarni og Guðfinna, með þeim á bílnum út að Skógum og gengum svo til baka. Ingi kom og sótti kindur. Kristján fór ofan í Rauðalæk.
11. desember
Ingi kom til að spyrja eftir kindum, átti hér eina og lét hana vera. Kristján fór ofan í Rauðalæk. Annars er hann að gaufa við að spinna á spunavél. Við Bjarni slátruðum kálfi og kettling. Svo var Bjarni lasinn um kvöldið.
12. desember – sunnudagur
Kristján fór til Akureyrar á hjóli. Ingi kom til að grennslast um kindur og ég fór ofan í Rauðalæk með sýrugeymi og svo klippti Ingi á mér hausinn. Steini í Kirkjubæ kom með böggul frá Steindóri. Laufa bar í nótt og átti svarhuppótt naut.
13. desember
Þorleifur á Hamri kom með bækur. Ingi kom til að sækja kindur og svo fór Bjarni með honum ofan eftir til að sækja kindur. Kristján kom heim um kvöldið.
14. desember
Ég slátraði kálfinum hennar Laufu. Ingi kom.
15. desember
Steini á Bryta kom til að fá Kristján til að vera hjá sér á morgun því hann ætlar í kaupstað. Kristján fór úteftir.
16. desember
Þá fóru þau Guðfinna og Bjarni til Akureyrar til að kaupa til jólanna, þau komu heim um kvöldið, ófull.
17. desember
Rjúpa bar í nótt dauðum kálfi, ég vakti yfir henni um tíma. Guðfinna þvoði. Kristján kom heim.
18. desember
Kristján fór með Hornstrendingabók og Dag í Bjarnardal suður í Syðri-Bægisá.
19. desember – sunnudagur
Kristján fór í snatt. Bjarni fór ofan í Rauðalæk til að sækja rollu. Ég fór út í Rauðalæk til að spyrja eftir kindum og svo fékk ég hundaskammt hjá Hallgrími. Svo fór ég út í Bryta. Ingi á Rauðalæk kom og klippti af Kristjáni og Bjarna.
20. desember
Ég fór í kaupstað með kálfskjöt og keypti aftur epli o.fl.
21. desember
Ég fór suður í Bægisá til að síma til Akureyrar af því ég tapaði böggli innfrá í gær og fannst hann þar sem bjóst við honum. Við byrjuðum að fara með hrút og hleyptum til 10. Ingi á Rauðalæk kom í kindaleit og Þorleifur á Hamri kom með bækur frá Steðja, Rósvelt og Dag í Bjarnardal.
22. desember
Steini á Bryta kom og ég fór með honum suður í kirkju til að líta eftir ofninum.
23. desember
Steindór kom heim um kvöldið. Baldur á Vindheimum flutti hann heim í hlað.
24. desember
Það voru allir uppteknir við jólaundirbúning fram á kvöld. Og um kvöldið voru gefnar jólagjafir. Kristján gaf ömmu sinni nælu og afa sínum tóbak. Friðgerður gaf ömmu sinni sessuborð og afa sínum handklæði og vasaklút og þeim báðum saman bók, „Minningar frá Möðruvöllum“. Svo gaf hún Steindóri bók, „Hamingjudaga heima í Noregi“ og Bjarna afa nærbuxur og ákavítisflösku. Kristjáni gaf hún vasaspegil og milliskyrtu og bindi og svo gaf hún mér skinnhanska og mömmu sinni skó. Og svo gaf Steindór Friðgerði jólasokk með dóti í og mamma gaf henni skó og koddaver, ísaumað. Kristján gaf henni jólatréð með öllu tilheyrandi. Og svo fékk hún kjól og skó og buxur frá frænku sinni í Reykjavík. Steindór gaf Kristjáni spil og Guðfinna gaf mér bindi.
25. des
Stefán tók mjólk kl. 2. Kristján fór ofan að Hamri og allt Rauðalækjarfólkið og Reynir á Bryta. Tafði það fram um kl. 2 um nóttina við spil og fl. Kristján fór úteftir með Reyni um nóttina.
26. desember – sunnudagur
Ég fór kl. 8 suður í Bægisá til að kveikja upp í kirkjuofninum nýja því nú á að messa. Svo fórum við til kirkju, ég, Guðfinna, Bjarni og Steindór og var margt fólk í kirkju. Kristján kom heim um kvöldið.
27. desember
Stebbi tók ekki mjólkina og var hún neðra allan daginn og grafin þar í fönn um kvöldið.
28. desember
Stebbi fór með mjólkina. Það fór í 8 dunkum héðan, um 150 lítrar. Þorleifur á Hamri kom með símskeyti til Bjarna. Steindór og Kristján fóru út í Bryta.
29. desember
Hósi á Hamri kom til að fá Kristján með sér í snjómokstur yfir í Sporði til þess að bílar komist á samkomu sem á að vera á Náströnd í kvöld. Og svo fór Kristján þangað um kvöldið. Við Bjarni fórum suður í Bægisá og sendum 3 heillaóskaskeyti. Um kvöldið var leikið í útvarpinu leikritið „Orðið“ eftir Kaj Munk.
30. desember
Við Bjarni fórum ofan í Rauðalæk með Rauðku og vagn til að sækja þangað tvo rúgmjölspoka sem Pétur flutti innan að fyrir mig.
31. desember
Um kvöldið fórum við í boð ofan í Hamar, öll nema pabbi, mamma og Friðgerður og komum ekki heim fyrr en kl. að ganga fjögur.
[1] Ævintýrið var sjónleikur í flutningi Leikfélags Akureyrar, höfundar Robert Fleurs og Gaston de Caillavert, leikstjóri Jón Norðfjörð.
[2] Skarphéðinn Sigmundur Bjarnason (1927-2006) bróðir mömmu, hann hefur verið háseti á strandferðaskipi þegar þetta gerist.