Júlí 1944

Júlí 1944

1. júlí
Steindór og Kristján fóru út að Skógum og kláruðu að rífa bretahúsið. Svo slógu þeir frá hliðstólpunum um kvöldið. Við Steini fórum suður í Bægisá og kláruðum að gera við kirkjugarðinn. Svo sló ég partinn fyrir sunnan og neðan lækinn á nýræktinni. Túnið er lélegt og sprettur lítið vegna mikilla þurrka.

2. júlí – sunnudagur
Þá flutti Björn í Efstalandskoti draslið úr bretahúsunum heim fyrir okkur og fór hann 4 ferðir. Steindór og Kristján voru með honum en við Steini tókum á móti heima. Þorleifur kom og fékk lánaða sláttuvélarolíu. Stefán Nikk kom og var að finna Steina.

3. júlí
Ég sló part neðan við skurðinn á nýræktinni suður og niður. Svo var snúið í eldra heyinu. Settar saman rakstrar- og snúningsvélarnar. Jón á Skjaldarstöðum kom.

4. júlí
Það var snúið í heyinu og eldra heyið sett upp í sátur[1].

 

[1] Hér verður hlé á dagbókarskrifum, m.a. vegna heyanna.