Júlí 1942
1. júlí
Við rákum inn það sem eftir var órúið og rúðum það. Svo snerum við í töðunni og svo sló Steindór 2-3 dagsláttur í viðbót suður og niður. Hann fór um kvöldið út í Rauðalæk.
2. júlí
Steindór fór í vinnuna. Við sem heima vorum snerum í heyinu og fönguðum það eldra og svo var sleginn blettur með vél um kvöldið. Kristbjörg[1] á Rauðalæk og Soffía í Skógum komu. Kristján fór í snatt um kvöldið ofan í Rauðalæk.
3. júlí
Steindór fór í vinnuna en kom heim kl. 5. Við Kristján fluttum úr torf fyrripartinn en gerðum lítið seinnipartinn nema slátra kálfi o.þ.h. Einar[2] á Laugalandi kom og var við kosningaundirbúning.
4. júlí
Steindór var heima og við tókum upp svörð úr einni kistu eftir miðdaginn og ristum allt að 100 reiðinga um kvöldð. Jóhannes á Brúnastöðum kom til að láta vita um kosningabíl á morgun.
5. júlí – sunnudagur
Þá voru kosningar til alþingis og kusu allir sem vettlingi gátu valdið. Steindór fór snemma því hann er í kjörstjórn. Svo fórum við Guðfinna með mjólkina ofan á útleggjara og gengum út í Neðri-Rauðalæk og töfðum þar um stund og þá kom Sjálfstæðisbíll og við fórum með honum og líka pabbi og mamma og fórum við með honum inn á þinghús og svo fórum við Guðfinna þaðan inn á Akureyri því þar átti hún að kjósa. Svo vorum við flutt í fólksbíl vestur hjá Grjótgarði og þaðan með Laugja[3] á Bægisá hér vestur. Með okkur kom innanað drengur 4 ára sem heitir Sigurður Kristinsson[4] og á hann að vera hér ef hann eirir í nokkra daga. Kristján fór með kálfskjöt út í Hvamm. Franklín kom.
6. júlí
Það var snúið í heyinu fyrripartinn. Steindór fór í vinnuna. Ég fór með Búbót til að halda henni en hún var hölt svo ég fór með hana aðeins í Brúnastaði og fékk svo Baldvin með nautið þangað. Um kvöldið fluttum við rúmlega 100 reiðinga úr flagi og ég risti á að giska 60. Ég fór suður í Bægisá og ætlaði að síma í Bakkasel en svo bað ég Marinó Ben. að erinda fyrir mig við Rút[5] því hann var að fara frameftir.
7. júlí
Steindór fór ofan í Bláteig til að innrétta fyrir Leónharð. Við Kristján slógum blett með orfum og svo var þvegin ull.
8. júlí
Steindór fór út í Bláteig. Það var rekið saman á Bægisárdalnum og við Kristján tókum þar okkar fé. Pétur og Ingi voru með okkur og komu svo hér heim og fengu kaffi. Um kvöldið fórum við Kristján út í Skóga með Skrautu undir naut.
9. júlí
Þá átti að vera almennur samanrekstur í Glæsibæjarhreppi og var rekið saman milli Bægisár og Fossár en ekki utan við af því þeim líkaði ekki veður. Við vorum í venjulegu kindaþvæli allan daginn og svo lögðum við á stað með rekstur um kvöldið kl. 8 og fóru þeir með mér Steindór og Kristján. Vorum við fram hjá Gloppu um fótaferðartíma.
10. júlí
Við fengum kaffi og mjólk í Gloppu[6] og svo héldum við áfram og skildum við féð kl. 5 uppi á Vaskárdal. Fengum aftur kaffi í Gloppu á heimleiðinni og náðum aðeins háttum heim um kvöldið. Þá kom Áslaug Þorleifs[7] og var hér um nóttina.
11. júlí
Það var talsverður þurrkur og tókst að þurrka nokkuð af töðu sem fyrst var slegin. Steindór sló a.m.k. 2 dagsláttur með vél.
13. júlí
Þá var þvegin ull. Steindór sló með orfi í kring um það sem slegið var á laugardaginn en það var hér fyrir utan og neðan bæinn. Kristján fór út í Bryta að sækja ull.
14. júlí
Það var klárað að þvo ullina. Steindór sló dálítið með ljá. Við Kristján fluttum reiðinga úr flagi og ég risti nokkra. Steindór fór út í Rauðalæk. Kristján fór ofan í Hamar um kvöldið.
15. júlí
Steindór var niður í Bláteig við að innrétta fyrir Leónharð. Við Kristján slógum dálítið með orfum. Ævar[8] á Steðja kom til þess að fá lánað kaffi. Tryggvi[9] í Lönguhlíð kom og bað mig að járna hest fyrir sig og gerði ég það. Steini í Kirkjubæ kom til þess að sækja ull. Pabbi fór í kaupstað og kom ekki aftur um kvöldið.
16. júlí
Við vorum að slá úr á túninu og rifja og svo var slegin rúm dagslátta með vél um kvöldið. Pabbi kom heim með mjólkurbílnum, hann var að finna lækni og sagði læknir að hann hefði of háan blóðþrýsting og æðakölkun og snert af þvagteppu. Gunnrún kom um kvöldið.
17. júlí
Þá kom Jóhanna Þorsteinsdóttir[10] og Kiddi ásamt þrem öðrum og voru á leið fram að Hraunsvatni. Fengu þau hér tvo hesta en 3 út á bæjum. Komu aftur um kl 5 og héldu brátt áfram til Akureyrar. Við vorum að atast í heyþurrk en útliðið var svo ótryggt að við gerðum ýmist að dreifa, snúa eða dríla. Leónharð kom með bækur og fékk lánaðan poka o.fl. Siggi á Bryta kom um kvöldið.
18. júlí
Þá vorum við að snúa og þurrka heyið en þó varð ekki fullþurrt nema 2 flekkir. Annars er einn flekkur að heita má á því sem slegið hefur verið. Um kvöldið kom Kristinn Jónsson[11] og tafði fram um kl. 12 um kvöldið. Steindór sló um kvöldið sáðsléttuna út og niður í túnhorninu.
19. júlí – sunnudagur
Þá var messað á Bægisá og fór mamma til kirkju. Kristján fór austur í Vaglaskóg með bindindisfélaginu. Við þurrkuðum og tókum saman 4 bólstra og nokkrar sátur.
20. júlí
Þá bundum við inn 12 hesta af töðu og er það fyrsta heyið sem hirt er í sumar. Steindór fór um kvöldið út í Bláteig o.fl.
21. júlí
Þá bundum við í efri hlöðuna 12 hesta og 8 í hina, var það að sunnan og neðan af nýrækt. Svo dreifðum við drílum[12] og tókum saman 10 bólstra hér fyrir utan og neðan bæinn. Steindór fór um kvöldið út í Bryta til að slá þar með vél. Stefanía og Haukur[13] komu með mjólkurbílnum og verða hér einhverja daga. Kristján fór í snatt um kvöldið. Siggi á Hamri kom með póst og til að fá skipti á eggjum.
22. júlí
Við botnuðum föng[14] og bundum þau svo seinnipartinn, alls 18 hesta, auk þess tókum við saman 5 bólstra og dríluðum stóran flekk um kvöldð. Steindór sló með vél fram að miðjum degi bæði suðurogniður á nýrækt og neðan við skurðinn neðra. Stefanía og Haukur fóru ofan í Neðri-Rauðalæk því Ransí litla er þar í sumar. Þau komu aftur. Siggi á Bryta kom um kvöldið til að finna mömmu sína.
23. júlí
Við bundum 35 hesta af töðu hér í kring um bæinn og út og ofan að húsinu. Stefanía klippti af okkur Steindóri.
24. júlí
Við slógum með orfum fram á hádegi, seinni partinn var bundið sunnan og neðan af nýrækt[15] það sem fyrst var slegið. Það urðu 30 hestar og látið í efri hlöðuna. Það bilaði bíll úr Reykjavík hér niður á útleggjara og hafðist ekki í lag. Fólkð sem var tvenn hjón með tvö börn kom hér heim og bað um gistingu og var það hér um nóttina.
25. júlí
Reynard og Magnús af Reykjavíkurbílnum fóru inneftir með mjólkurbílnum til þess að fá stykkið sem brotnaði í þeirra bíl en stúlkurnar og börnin voru hér yfir daginn. Svo komu þeir aftur um kvöldið og gátu þá sett bílinn í lag. En þá var svo framorðið dags að það settist hér að aftur aðra nótt. Það svaf allt á kvistinum og var þar ein flatsæng og tvö rúm önnur. Ranka[16] á Skjaldarstöðum kom og sagði að Jón bróðir hennar lægi í lungnabólgu en væri á batavegi. Var hún að biðja um að við slægjum eitthvað fyrir þau á túninu og varð það úr að við fórum frameftir, ég og Steindór og Kristján og slógum þar dálitla skák. Dimma bar og átti svart naut og var það kviðrifið og iðrin úti um naflagatið og varð strax að lóga honum. Um kvöldið kom Aðalbjörn Pálsson[17] til þess að taka reiðinga fyrir Guðmund Axelsson. Voru það 300 stykki sem hann fékk og flutti Ölver það. Um kvöldið sló Steindór blett ofan undan húsinu[18] út og niður með vél.
26. júlí – sunnudagur
Þá fór Reykjavíkurfólkð um kl. 9.30 eftir að hafa borðað kúbrystir og tekið myndir af öllu mögulegu og svo borgaði það 70 kr fyrir greiðann. Hermann ráðsmaður á Skjaldarstöðum kom og tafði hér lengi dags. Kristján var allan daginn á snatti, fór á fundi yfir á Náströnd o.fl. Stefanía, Haukur og mamma fóru út í Bryta og svo kom Siggi með þeim aftur og fékk kálfsket að láni. Steindór fór út í Bláteig til að setja glugga í húsið. Rósant á Hallfríðarstöðum kom og fékk 2 reiðinga. Þorleifur á Hamri kom og vildi kaupa hrífuhaus. Pétur á Rauðalæk kom með slóðagrind sem hann hafði að láni. Ölver tók mjólk.
27. júlí
Þá var slegið með vél, þríhyrnan og sáðsléttan fyrir sunnan og ofan bæinn og mest af gömlu sléttunum suður og niður. Svo var snúið og fangað og tekið saman í tvær sátur. Ransí og Helga komu og töfðu um stund.
28. júlí
Þá var slegið með vél það sem eftir var af gömlu sléttunum og neðri parturinn af stykkinu suðurfrá. Þá tókum við saman úr drílum og föngum, 17 bólstra yfir 50 hesta, það var suður og niður að norðan og austan[19] og svo fyrir neðan skurðinn neðra. Það rigndi um kvöldið og þá görðuðum við nokkra flekki.
29. júlí
Við tókum saman 5 bólstra og fönguðum 3 flekki og bundum 12 hesta úr sátum. Um kvöldið var golu- og rigningarlegt svo við settum striga og reipi á bólstrana og komum ekki inn fyrr en kl. 12.30.
30. júlí
Þá bundum við 33 hesta í efri hlöðuna og svo fönguðum við upp á gömlu sléttunum. Þá kom Magnús[20] á Björgum, hann var að leita að hesti og fann hann hér efra.
31. júlí
Þá voru bundnir 12 hestar í reipi og svo var ekið á sleða[21], aðallega tekið úr föngum sem voru botnuð[22] og svo úr flekkjum, á að giska 42 hestar. Seinast settum við í bólstur[23] 5 hesta. Siggi á Bryta kom um kvöldið til að biðja mig að hjálpa við binding þar ytra á morgun.
[1] Kristbjörg Anna Ingjaldsdóttir (1896-1989) kona Jóns Marinós á Efri-Rauðalæk.
[2] Einar Gísli Jónasson (1885-1977) bóndi, kennari og hreppstjóri á Laugalandi var fylgismaður Sjálfstæðisflokksins og gæti hafa komið til að boða fagnaðarerindið, í því hafi kosningaundirbúningurinn falist. Hann gæti líka hafa verið að ræða við Steindór um framkvæmd kosninganna því Steindór var í kjörstjórn.
[3] Finnlaugur Pétur Snorrason (1916-2002) á Syðri-Bægisá faðir Snorra sveitarstjóra Hörgársveitar.
[4] Sigurður Kristinsson (1938-2020) var sonur Kristins flugmarskálks Jónssonar (1911-1971) uppeldisbróður mömmu í Botni og Ástþrúðar Jónínu Sveinsdóttur (1904-1978) systur Brynjólfs menntaskólakennara á Akureyri. Sigurður starfaði lengst af hjá Tollstjóranum í Reykjavík. Sigurður eirði fram í ágústbyrjun, hefði e.t.v. verið lengur hefði hann fengið að ráða, en Sveinn bróðir hans var síðar heilu sumrin í Garðshorni.
[5] Rútur Þorsteinsson (1905-1994) var bóndi í Bakkaseli þegar þetta var, síðar í Engimýri. Rútur var bróðir Þórs á Bakka, Ármanns á Þverá, Kára í Hólum og Ingimundar á Dvergasteini.
[6] Stefán Nikódemusson bjó þá í Gloppu, síðar á Efri-Rauðalæk.
[7] Áslaug Þorleifsdóttir (1930-2023) var flutt til Akureyrar þegar þetta var en hafði áður átt heima hjá foreldrum sínum í Búðarnesi, Efri-Rauðalæk og víðar í sveitinni. Hún var dóttir Sigurbjargar Steinunnar Önnu Frímannsdóttur, bróðurdóttir Pálma afa. Hún bjó síðast með Sigfúsi Stefánssyni frá Efri-Rauðalæk eftir að hann flutti til Akureyrar.
[8] Ævar Jón Forni Jóhannesson (1931-2018) uppfinningamaður, lengi starfsmaður á Raunvísindastofnun HÍ. Afi Ævars vísindamanns.
[9] Sigtryggur Sigtryggsson (1890-1972) faðir Maríu Valgerðar (1931).
[10] Jóhanna Lilja Antonía Þorsteinsdóttir (1917-1998) systir Baldur, Steinþórs og þeirra systkina. Kiddi var Kristinn Gunnsteinn Kristjánsson (1916-1996) eiginmaður Jóhönnu.
[11] Kristinn Jónsson (1911-1971) ólst upp með mömmu í Botni í Mjóafirði vestra. Hann var umdæmisstjóri Flugfélags Íslands á Akureyri og fékk mömmu til að koma til sín sem barnfóstru haustið 1939 og upp úr því var mamma vinnukona á Munkaþverá sumarið 1940 og í Garðshorni 1941 en hjá Kristni að vetrinum.
[12] Dríli voru heyhrúgur, svipaðar að stærð og föng nema dríli voru ekki söxuð heldur aðeins hrúgað upp til að verja heyið rigningu sem gert var ráð fyrir að yrði skammvinn. Þegar þornaði af grasi var dreift úr drílunu og heyinu snúið til þerris.
[13] Stefanía Sigurðardóttir (1906-1983) kemur oft við sögu hér á eftir. Eiginmaður hennar var Sigurður Olgeir Rósmundsson (1905-1986) frá Tungu í Skutulsfirði og þau áttu þrjú börn, Rannveigu Ágústu (1935-2006), Ransí, sem var í sveit á Neðri-Rauðalæk, Hauk Jóhann (1938-2013) sem kom með móður sinni í mjólkurbílnum, og Kolbrúnu (1947-2017). Áður hafði Stefanía eignast Sigurð Bárðarson (1930-2021), hér oft nefndur Siggi á Bryta. Stefanía og Sigurður áttu heima í Laxagötu á Akureyri. Pabbi færði þeim stundum kjöt sem þau kölluðu Manna-kjöt.
[14] Þar sem föngin voru söxuð var fljótlegt að raða þeim upp á reipi, 7 - 8 saman, og binda í bagga. Að föngin voru botnuð þýddi að saxaða heyröstin var dregin saman þannig að röstin lyftist upp í miðju og leit þá út svipað og dríli.
[15] Ekki er vitað nákvæmlega hvenær "nýræktin" sunnan við heimreiðina var sléttuð en það hefur verið fyrir 1940. Allar götur síðan voru túnslétturnar á þessu svæði kallaðar einu nafni "nýrækt".
[16] Ragnhildur Jónsdóttir (1898-1952) var systir Jóns bónda og Aðalheiðar ljósmóður og hún var móðir Baldurs Ragnars Ragnarssonar í Hallfríðarstaðakoti.
[17] Guðmundur Aðalbjörn Pálsson (1896-1944) bóndi m.a. Í Heiðarhúsum og síðar á Féeggstöðum í Barkárdal 1937-1941.
[18] Húsið út og niður, þ.e. utan og neðan við bæinn, var fjárhús sem enn hefur staðið uppi þó svo að búið væri að byggja nýtt fjárhús.
[19] Það er varla að heimafólk skilji hvað átt er við með þessum tilvísunum en svona var vísað á staði en ókunnugum þótti þetta skrýtið málfar.
[20] Magnús Sigurðsson (1896-1981) bóndi á Björgum í Hörgárdal 1922-1970.
[21] Á þessum tíma og síðar voru heybaggar ekki fluttir á hestum og hér var þeim ekið á sleða. Föngin í baggana höfðu áður verið botnuð, þá hefur þeim verið snúið við þannig að það sem niður sneri í fanginu og var rakt sneri upp og þornaði áður en heyið var bundið í bagga.
[22] Föngum sem voru botnuð var snúið við þannig að það sem áður sneri niður sneri upp. Þetta var auðvelt að gera við föng sem voru söxuð en erfitt að gera við dríli svo vit væri í.
[23] Hey sem var ekki fullþornað var sett upp í sátur eða bólstra. Í sátu var föngum raðað saman hverju ofan á annað í einfaldri röð. Í bólstri var fangaröðin tvöföld og heysætið gat því verið talsvert hærra. Mörgum árum síðar var farið að ýta heyinu saman í stór heysæti sem líktust gömlu bólstrunum nema í þeim voru ekki söxuð föng en sætin voru kölluð bólstrar. Yfir sátur og bólstra voru breiddir "strigar" til að verja þau fyrir rigningu. Strigi var búinn til úr fóðurblöndupokum úr striga og síðar var hægt að kaupa strigarúllur til að búa strigana til úr.