Apríl 1945
1. apríl
Suðvestan hríðargarri. Steini fór suður í Bægisá til að sópa og pússa kirkjuna því það á að messa á morgun. Tryggva[1] og Fríða á Hamri komu að gamni sínu. Kristján fór ofan í Hamar.
2. apríl
Ég fór suður í Bægisá til að kveikja í kirkjuofninum. Svo fóru þeir Steini og Kristján til kirkju. Rósant í Ási kom hér á leið frá kirkjunni. Kristján fór ofan í Rauðalæk og Hamar til að leita að hvolpinum. Hann var á Hamri.
3. apríl
Steini fór yfir á Náströnd til að hitta Ármann á Myrká en svo hafði Ármann ákveðið að koma hingað svo hann kom með Steina og var hér nóttina. Við vorum að gera upp ýmsar sakir viðvíkjandi kirkjureikningum o.fl. þess háttar. Kristján fór suður í Kirkjubæ. Ég tók við að gera útiverkin eftir viku giktarhlé.
4. apríl
Steindór fór til Akureyrar á mjólkurbílnum, kom aftur um kvöldið. Ármann fór líka á bílnum til Akureyrar.
5. apríl
Einar í Staðartungu kom og borgaði grafartektina kr. 50. Steini fór út í Ás með peninga til Rósants sem eiga að fara til samskota til að heiðra Einar á Laugalandi á sextugsafmæli hans. Við Kristján fluttum sauðatað suður og ofan á nýrækt. Guðfinna fór út í Rauðalæk. Kristján fór á brautina[2].
6. apríl
Steindór fór suður í Bægisá til að mála yfir kirkjugólfið. Steini fór þangað suðureftir um hádegið. Við Kristján herfuðum tvær sauðataðsrastir. Svo fór Kristján ofan á braut á eftir.
7. apríl
Við Kristján hreyttum mykju niður á túni og svo var Kristján með Steindóri við að herfa sundur sauðatað. Kristján fór ofan í Hamar og svo fór hann á ball yfir á Mela um kvöldið.
8. apríl – sunnudagur
Helga á Rauðalæk kom með bréf til Steindórs. Kristján fór á bæi.
9. apríl
Mamma fór suður í Kirkjubæ og Sigríður fylgdi henni til baka. Fúsi[3] á Rauðalæk kom til að finna Steindór.
10. apríl
Við vorum við að flytja úr sauðataðsröstum og hreyta. Það er nú allt að hálfri stungu þítt í jörð og byrjað að sjást í gróður.
11. apríl
Steindór var að smíða fram á Skjaldarstöðum. Sigga og Lína í Kirkjubæ komu. Þær voru að leita að ketti og fl. Kristján fór með boð suður í Kirkjubæ um markabækur. Við Kristján vorum að flytja úr sauðataðsröst.
12. apríl
Steindór var við að lakka kirkjugólfið. Við Kristján vorum að flytja á völl og búa til vermireit o.fl. Kristján fór í snatt um kvöldið.
13. apríl
Ég fór út í Rauðalæk með band o.fl., ætlaði að finna Stefán bónda en hann var þá ekki heima. Svo fór ég aftur um kvöldið og þá hitti ég Stefán. Hann ætlar að selja mér hest og sagði ég mætti sækja hann á sunnudagskvöldið.
14. apríl
Við Kristján tókum upp grjót úr grundinni fyrir utan læk. Svo fór Kristján í snatt um kvöldið og á ball á Náströnd. Rauðka kastaði og átti mósótta hryssu.
15. apríl
Það var messað á Bægisá. Ég kveikti á ofninum og svo fór Steini, Steindór og mamma til kirkju. Rósant í Ási gekk hér um á leið til kirkju. Þorleifur á Hamri kom með bréf til Guðfinnu frá Aðalheiði. Ég fór út í Rauðalæk um kvöldið til að sækja hestinn en hann er allur haltur og stirður af harðsperru. Hann er jarpur að lit, 12 vera gamall og á að kosta 1.200 kr. Kristján svaf fram á hádegi og fór ofan að Hamri seinnipartinn.
16. apríl
Það var hreytt úr sauðataðshlössunum sem eftir voru og svo var herfað yfir.
17. apríl
Það var herfað á Grána, Rauð og Brún en Jarpur er enn haltur og ekki brúkunarfær. Um kvöldið fórum við Kristján með gráu kvíguna út í Vindheima undir naut.
18. apríl
Sunnan golu sveljandi. Það var klárað að herfa yfir það sem búið var að hreyta. Steini fór suður í Bægisá til að kveikja á kirkjuofninum því það var yfirheyrt í kirkjunni.
19. apríl
Þá var samsæti á Laugalandi: Sextugs afmæli Einars Jónassonar[4]. Komu þar saman margir sveitungar og kunningjar. Var vel veitt af kaffi, víni, vindlum o.fl. Ræður voru haldnar og stóð hófið fram á nótt. Steini og Steindór fóru ofan eftir og komu aftur fyrir háttatíma. Siggi á Hamri og Guðbjörn á Rauðalæk komu hér og töfðu.
20. apríl
Þá vorum við boðin ofan að Laugalandi þau sem ekki fóru í gær og fórum við með mjólkurbílnum, pabbi, mamma, Jóhanna og ég, og töfðum þar allan daginn í besta yfirlæti. Komum aftur með mjólkurbílnum. Steindór herfaði á túninu. Kristján fór á samkomu á Melum.
21. apríl
Ég fór til Akureyrar með mjólkurbílnum. Kom heim með 2 fóðurblöndupoka og fleira skran.
22. apríl
Kýrin hennar Jóhönnu bar í dag og heildist ekki og náði ég hildunum.
23. - 28. apríl
Oftast norðan strekkingur og ónáðugt veður. Þó var alla daga látið út og dregið af. Þriðjudag og miðvikudag vorum við að skipta túninu[5] og höfðum túnmælingatæki Einars ofan úr Laugalandi. Á miðvikudaginn fór Steini í vinnu ofan að Laugalandi og alla daga úr því. Það er verið að byrja á sundlaugarbyggingunni. Þá kom Eyvindur Jónsson kúaeftirlitsmaður. Á fimmtudag kom Sigurður Stefánsson[6] frá Ási. Hann var að biðja Steindór að hjálpa sér til að efna niður í kertastjaka sem hann ætlar að fara að smíða. Á föstudaginn kom Stebbi Nikk, hann var að líta á hestinn sem ég fékk hjá honum á dögunum. Hann er alltaf haltur og stirður síðan hann kom og vildi ég fara að skila klárnum en Stefán segir hann komi til svo ég hef hann eitthvað lengur til reynslu. Á laugardaginn kom Lína í Kirkjubæ, hún var að biðja mömmu að prjóna fyrir sig. Þá kom Reynir og tafði um kvöldið en svo fór hann og Kristján á ball yfir á Mela. Pétur á Rauðalæk kom með skolkönnu og bað mig um leið að skjóta fyrir sig tvo hunda og fór ég ofnaeftir um háttatímann og skaut tík og hvölp. Einnig slátraði ég kálfi fyrir Jóhönnu um daginn. Undanfarna daga hefur verið skotist í að gera við girðingar. Það er alltaf seint búið með kvöldverkin svo að það trassast fyrir mér að skrifa í bókina.
29. apríl – sunnudagur
Pabbi fór ofan í Rauðalæk. Fúsi á Efri-Rauðalæk kom og var að finna Steindór. Kristján fór á bæi.
30. apríl
Steini fór í vinnuna á Laugalandi. Kristján var í vinnu hjá Gísla í Kirkjubæ og var að rífa bragga inn við Akureyri og flytja vestur. Við Steindór gerðum við girðingar. Ein ær bar í dag og var tvílembd.
[1] Kristjana Tryggva Kristjánsdóttir (1882-1969) var verkakona á Akureyri þegar þarna var komið sögu. Hún og Guðrún móðir Hamarssystkinanna voru systrabörn.
[2] Kristján hefur farið í vegavinnu á Mörkinni.
[3] Zophonías Sigfús Stefánsson (1926-2007) sonur Stebba Nikk, lengi bóndi með foreldrum sínum á Efri-Rauðalæk en þau fluttu þangað 1944.
[4] Einar Gísli Jónasson (1885-1977) bóndi, kennari og hreppstjóri á Laugalandi á Þelamörk.
[5] Hér hafa greinilega verið formleg búskipti í gangi milli Steindórs og pabba. Þau entust ekki lengi því að Steindór fór að vinna enn meira en fyrr annarstaðar og pabbi sá um búskapinn.
[6] Óþekktur, varla sr. Sigurður á Möðruvöllum.