September 1945

September 1945

1. september
Steindór var lasinn en sló þó og flutti í vothey. Ég flutti heim tvo vagna af sverði, slátraði rollu (Móleit) í matinn, batt svo 4 hesta af þurrheyi og seinast fluttum við Stína 7,5 votabandshesta úr flóanum. Kristján fór í bæinn og á Mela um kvöldið.

2. september
Gísli í Kirkjubæ kom og ég járnaði fyrir hann hest. Við tókum saman lítið eitt af heyi um kvöldið.

3. september
Dumbungs veður. Ég sló upp og flutti í gryfju.

4. september
Þykkt loft. Það var rakað og flutt inn á tveimur vögnum í vothey. Svo sló ég hér út og niður með læknum og batt 6 hesta af þurru um kvöldið.

5. september
Júlli Hjálmar kom á bíl, var að finna Steindór. Ég tók saman það sem ég sló í gær og batt það (4 hestar) en flutti það ekki heim. Svo sló ég sunnan við Hvíthólinn[1].

6. september
Ég batt úr flötu 3 hesta og flutti heim 6. Það var óþægilegt að vera við heyskap.

7. september
Það var slegið og rakað, ég sló seinni partinn slétta partinn niður með girðingunni við merkin. Kristján kom heim úr vegavinnunni. Ég hef nú tekið við 750 kr sem hann á til geymslu.

8. september
Það var þurrkað og bundið á bæjunum. Ég sló um stund um morguninn en svo var þurrkað og bundið annað hey sem laust var úti, alls 16 hestar. Kristján hjálpaði til. Jóhanna tók upp meira en 300 pd af kartöflum.

9. september
Ég fór suður í Bægisá og talaði í síma við Önnu á Þverá. Júlli kom hér fram um 11 leytið til að sækja Steina, hann ætlar að verða á prestastefnu[2] á Akureyri í dag og á morgun. Reynir kom með Júlla og fór aftur með mjólkurbílnum sem tók sunnudagsmjólk um 5 leytið. Kristín fór suður í Kirkjubæ til að finna Jóhann. Rósant í Ási kom til að fá dregna sláturhnífana sína. Pétur kom með gangnamiða.

10. september
Steindór kláraði að tyrfa og grjótbera sína votheysgryfju. Ég sló og flutti inn í gryfju af þremur vögnum. Kristín á Rauðalæk kom.

11. september
Steindór fór til Akureyrar, fékk Gest með bílinn þegar hann kom. Jóhanna kláraði að taka upp kartöflurnar sínar, a.m.k. 4 tunnur alls. Steini kom heim af prestastefnunni. Júlli keyrði hann. Reynir kom með og Marteinn í Holti. Ég sló upp 1-2 hesta og flutti það í gryfjuna, svo flutti ég heim svið o.fl.

12. september
Ég flutti heim svörð o.fl., tók seinast upp úr garði.

13. september
Steindór fór í síma, var að panta síldarmjöl á Dagverðareyri. Ég flutti inn taðhlaða og sorteraði og setti kartöflur í geymslu.

14. september
Mamma fór til Akureyrar. Það var 80 ára afmæli Ingibjargar systur hennar. Við Steindór vorum að gera við skólpleiðslurnar frá húsinu. Svo sló ég tuggu til að setja ofaná votheysgryfjuna. Aðalheiður á Barká kom til að biðja um striga og kartöflur.

15. september
Gestur kom með 20 poka af síldarmjöli frá Dagverðareyri. Hann komst með það heim á tún. Það kostar 53 kr pokinn og ég fékk 10. Sveinn kom í gangnafríið. Kristín útenti sinn kaupavinnutíma og borgaði ég henni kaupið í kvöld, 550 kr.

16. september
Við vorum að reka saman fé og sækja til næstu bæja. Kristín fór yfir á bæi.

17. september
Þá voru gengnar fyrstu göngur. Ég var gangnaforingi og fór á dalinn við 5. mann. Steini fór í Fossárdalinn og Steindór kom suður að Bægisánni. Svo fórum við allir ofan á rétt[3] og Sveinn á gamla Brún en ég reið á Hamars Jarp.

18. september
Ég var úrtíningsmaður í Vaglarétt. Kom heim um kl. 1. Svo rákum við flestar kindurnar inn í rétt, merktum lömbin og bólusettum nokkrar kindur og hleyptum svo uppfyrir.

19. september
Þá var klárað að taka upp kartöflurnar, pabbi og mamma hjálpuðu mér síðast með minn garð. Það er víðast vel sprottið. Steindór fær rúmlega 9 tunnur, Steini 4 og ég 7-8.

20. september
Ég fór í bæinn með mjólkurbílnum.

21. september
Ég þurrkaði kartöflur og setti ofan í gryfju. Steindór fór út í Möðruvallasókn.

22. september
Kýrnar voru úti stund seinnipartinn en gefið um morguninn og er það í fyrsta skipti á þessu hausti.

23. september
Við rákum saman í fjallinu. Ég fór suður í Kirkjubæ og í Neðri-Rauðalæk um kvöldið.

24. september
Þá voru gengnar aðrar göngur. Steindór fór á Fossárdalinn. Ég fór hér suður að Bægisánni og svo út fjallið. Dregið sundur á Vindheimum.

25. september
Steini var úrtíningsmaður í Vaglarétt. Steindór fór suður í Kirkjubæ með kartöflur og gerði við rétt. Seinnipartinn tókum við til sláturfé og rákum það suður og ofan á Fúsaholt.

26. september
Þá fórum við til Akureyrar með sláturfé, var flutt á tveimur bílum héðan og frá Hamri. Ég fór með 29 kindur, seldi mest af slátrunum og komst heim aftur um kl. 3. Steindór og Steini komu heim um kvöldið.

27. september
Steindór fór yfir í Dagverðartungu og ætlar að verða þar í 2 daga við fjósbyggingu. Rósant í Ási kom til að sækja blöð sem hann á hér síðan í gær.

28. september
Steindór kom heim um kvöldið, sömuleiðis Kristján. Ég var við allskonar dútl og gerði lítið.

29. september
Rósant í Ási var hjá Steindóri í dag í skurði. Ég slátraði 4 rollum og einu lambi til heimilis. Kristján fór til Akureyrar.

30. september
Dynjandi hrakveður. Við rákum saman í hólfunum, tókum úr ókunnugt og athuguðum heimaféð. Þorleifur kom til að sækja kindur.

 

 

[1] Nú veit enginn hvar Hvíthóllinn var.

[2] Það veit heldur enginn hvaða spaug þetta var en líklega hefur Steini átt erindi í bæinn og sagst ætla að vera á prestastefnu.

[3] Vaglarétt