Mars 1921

Mars 1921

  1. Kristmundur kom og Steindór girti pott fyrir hann.
  2. Steindór fór með vefjarverk út í Steðja, 22 hespur sem mamma átti og 8 hepur sem amma átti. Snorri[1] á Steðja liggur, er slæmur í maganum og víðar. Rósa[2] á Neðri-Vindheimum kom.
  3. 6 gr. frost. Norðan grenjandi stórhríð allan daginn, hálfgert skítaveður, stokkhélaðir gluggar, hríðin bylur á þakinu. Það lá að að veturinn væri ekki búinn eins og Bensi[3] spáði.
  4. 11-12 gr. frost, illyrmislegt útlit. Jóhann Ó kom með fundarboð[4].
  5. Ég, Steindór, Steini og Jóhanna fórum á fund út í Ás kl. 5, var farið í leiki á eftir. Við komum heim kl. 2 um nóttina. Læknirinn kom að Steðja, sagði að það þyrfti að flytja Snorra inneftir til þess að skera hann upp. Elín[5] í Ási er slæm í vélindinu, selur upp. Guðrún[6] á Hamri liggur.
  6. Nonni[7] á Skjaldarstöðum kom inn
  7. Rósant á Hamri kom og fékk 2 skeifur. Pabbi fór suður að Ytri-Bægisá. Steinberg[8] í Skriðu kom
  8. Steindór gerði úti fyrir Kristmund. Kristmundur fór ofan að Grjótgarði og sótti sleðann og 200 pund af rúgmjöli og kom með það hingað heim. Snorri á Steðja var fluttur í rúmi á sleða inneftir. Bjarni á Hamri kom með fundarboð.
  9. Rósant kom og fékk hvíta tvinnarúllu. Þorleifur kom og fékk 3 skífur.
  10. Jón Hólm og Einar Sigvaldason[9] komu, Einar fékk lánuð skíði. Rósant á Hamri kom og Hreggviður
  11. Hreggviður kom með Kol en hann strauk aftur. Guðrún á Hamri var flutt inneftir, Steindór fór með henni. Þorlákur á Bryta kom og skoðaði kláðaskoðun. Einar gamli kom og skilaði skíðunum, sagði tvö mannslát, Kató[10] Jónsson og Þorsteinn[11] í Rauðuvík. Krabbinn. Sófus[12] kom og Alli[13] Jóhannsson.
  12. Steindór kom heim úr kaupstaðnum.
  13. Jóhanna fór út í Ás. Zóphús kom og Alli. Þorleifur. Steini fór útí Rauðalæk.
  14. Snorri á Steðja dó í gærkvöldi. Steindór fór út að Neðri-Vindheimum og Neðri-Rauðalæk.
  15. Ég fór ofan að Hamri og út í Rauðalæk. Steini fór út í Rauðalæk og ofan að Laugalandi með tað. Pabbi fór ofan að Hamri.
  16. Bjarni á Hamri kom. Pabbi fór ofan að Hamri. Mamma, Kári og Bára fóru út í Bryta. Ekið taði frá húsinu út og niður[14] suður og ofan á sléttur. Sigvaldi kom og sótti svörð. Steindór fór út að Neðri-Vindheimum.
  17. Sófus kom og Gestur[15]. Hreggviður. Steindór fór út að N-Vindheimum. Ekið út úr hesthúsi.
  18. Hreggi kom og Elísabet með fundarboð og kaupfélagsreikning til Steina. Pabbi fór fram að Efstalandi.
  19. Ég fór yfir að Lönguhlíð. Steindór fór út að N-Vindheimum, sótti síldarkvartil. Kári fór út í Bryta. Jóhann[16] á Neðstalandi kom og fékk 2 ½ hest svörð. Ekið heim sverði. Páll í Skriðu kom með hrosshár.
  20. Steindór fór út að N-Vindheimum, ég fór út í Ás.
  21. Steindór og Jóhanna fóru í kaupstað og komu heim um kvöldið.
  22. Páll í Skriðu kom með bréf.
  23. Hreggi kom.
  24. Steindór fór yfir að Þúfnavöllum. Hreggviður kom. Kristmundur gekk í burtu frá Bægisá að mestu leyti. Ég fór með hest og sleða með dóti á út og ofan að Hamri. Pabbi fór suður að Bægisá.
  25. Föstudagurinn langi. Ella og Laufey[17] gengu um. Stofumessa á Bægisá. Kristmundur kom.
  26. Steindór fór yfir að Lönguhlíð. Pabbi fór út að N-Vindheimum og Bryta. Ekið út úr hesthúsi . Einhver ólund í Skjóna. Hreggi var nóttina. Snorri Guðmundsson var jarðaður.
  27. Jóhanna og Bára fóru til kirkju. Steindór gerði úti suður á Bægisá. Eiríkur og Svafa gengu um.
  28. Kristmundur kom tvisvar, fyrst með 3 kindur sem eiga að vera hér og svo í seinna skiptið ti að fá sleða. Hreggviður er hér á nóttunni og Steindór gerir úti á Bægisá undir umsjá Jósavins. Pabbi fór ofan að Hamri.
  29. Páll í Skriðu kom og Kristín[18] og Lína. Ég fór ofan að Hamri. Á föstudaginn langa fæddist barn á Efstalandi[19].
  30. Kristmundur kom með 90 pund af heyi sem hann leggur til með kindunum sínum. Jón Þ[20] í Lönguhlíð kom til þess að finna Kristmund. Pabbi fór út í Ás á fund sem haldinn var þar fyrir fjóra hreppa til að ræða um kaup verkafólks næsta ár, 15 menn sátu fundinn. Pabbi kom með „Geisla“[21] utan úr Rauðalæk. Guðrún á Hamri liggur á spítalanum og Árni B. var skorinn upp á skírdag. Botnlangabólga.

 

 

[1] Snorri Guðmundsson (1886-1921) var bóndi á Steðja, faðir Stefáns Guðmundar vörubílstjóra.
[2] Rósa gæti hafa verið Sigurrós Sigtryggsdóttir (1888-1942), húskona á Neðri-Vindheimum, kona Tryggva, móðir Maríu Sigtryggsdóttur. Rósa gæti líka hafa verið Sigurrós Pálsdóttir (1872-1926) húsfreyja á Neðri-Vindheimum og síðar Efri-Vindheimum, móðir Jóns Hólm Friðrikssonar, sem áður hefur komið fyrir. Seinni maður hennar var Karl bóndi á Efri-Vindheimum. Þriðji möguleikinn er Jóhanna Bergrós (1907-1924), dóttir Sigurrósar Pálsdóttur og systir Jóns Hólm.
[3] Líklega er þetta Benedikt Einarsson söðlasmiður sem virðist hafa verið við búskap á Ytri-Bægisá – Kirkjubæ – frá árinu 1916 en átti heima á Akureyri, stundaði einhvers konar fjarbúskap á Bægisá. 
[4] Ungmennafélagsfundur daginn eftir.
[5] Elín Margrét Jónasdóttir (1876-1921), seinni kona Sigurjóns bónda í Ási, móðir Sigrúnar konu Kára á Þverá, hálfsystir Önnu ljósmóður á Þverá. Elín dó í ágúst þetta ár.
[6] Guðrún Bjarnadóttir (1866-1935), kona Rósants bónda á Hamri, móðir Þorleifs, Fríðu og Bjarna. Systir Guðrúnar var Sigríður móðir Sigmars Hóseassonar sem var faðir Sigga á Hamri, fóstursonar Fríðu og Þorleifs.
[7] Jón Jónsson (1885-1967) bóndi á Skjaldarstöðum, bróðir Aðalheiðar ljósmóður á Barká. Fóstri Baldurs Ragnars flutningabílstjóra og Steindórs Kristfinnssonar rafvélavirkjameistara. Magnús faðir Jóns og Aðalheiðar og Steinunn Anna í Garðshorni voru systrabörn. Aðalheiður á Barká og Pálmi í Garðshorni voru þremenningar. 
[8] Jón Steinberg Friðfinnsson (1901-1931) sonur Friðfinns Pálssonar sem var bóndi í Skriðu 1900-1917. Friðfinnur og Gísli á Neðri-Vindheimum voru bræðrasynir, báðir af Stóragerðisætt. Á þessum tíma var þríbýlt í Skriðu, ábúendur úr sömu fjölskyldu.
[9] Einar Sigvaldason (1855-1936) átti heima á Hjalteyri, engin sjáanleg tengsl Einars gamla við Garðshyrninga.
[10] Óskar Kató Aðalsteinn Jónsson (1901-1921) átti heima í Hrísey.
[11] Þorsteinn Vigfússon (1849-1921) bóndi í Rauðuvík eða Rauðavík.
[12] Sigurgeir Sófus (Zóphus) Gissurarson (1883-1965) faðir Ragnheiðar Jóhönnu Báru tökubarns í Garðshorni. Sófus bjó á Þinghóli í Kræklingahlíð ásamt konu sinni, Kristjönu Jóhannsdóttur, og þremur dætrum. Ekki er ljóst af hverju Báru einni var komið fyrir hjá vandalausum, væntanlega vegna fátæktar.
[13] Væntanlega Aðalsteinn Jóhannsson (1892-1977) bóndi á Skútum. Kona hans var Sigríður Sigurjónsdóttir Friðriks Jónssonar sem bjó í Garðshorni 1897-1899. Aðalsteinn og Sigríður áttu t.d. Jónas sem bjó á Grjótgarði og í Ási, giftur Þrúði Gunnarsdóttur frá Sólborgarhóli, og þau áttu líka Ásmund föður Þrastar.
[14] Fjárhús sem stóð utan og neðan við bæinn, sjá byggingasögu Garðshorns.
[15] Ekki gott að segja hver Gestur var, hugsanlega Halldórsson (1910-1973) sonur þáverandi ábúenda í Bakkaseli. Annar möguleiki væri Gestur Sæmundsson (1903-2004) síðar bóndi á Efstalandi en móðir hans var vinnukona á Syðri-Bægisá um þetta leyti.
[16] Sigurður Jóhann Sigurðsson (1872-1953) bóndi á Neðstalandi, bróðir m.a. Rósants á Hamri, Jóhannesar föður Jóa á Vindheimum og Jóhönnu móður Gísla manns Maríu Valgerðar Sigtryggsdóttur.
[17] Systurnar frá Efri-Rauðalæk
[18] Kristín Hallgrímsdóttir (1876-1956) kona Kristmundar á Bægisá, móðir Hreggviðar Sveinssonar Björnssonar frá Flöguseli. Sá Sveinn Björnsson var þó ekki faðir Brynjólfs í Koti heldur var Soffía systir Sveins móðir Brynjólfs.
[19] Ásta Frímannsdóttir (1921-1996) Guðmundssonar og Margrétar systur Steina.
[20] Jón Stefánsson Thorarensen (1870-1961) bóndi í Lönguhlíð, frændi Þorláks á Bryta.
[21] Geisli var gamanblað sem kom fyrst út 1917, ritstjóri Ólafur Guðnason frá Signýjarstöðum. Fimm blöð komu út 1917 en síðan ekki meira enda var blaðið ekkert mjög skemmtilegt.