Minnisbók Frímanns Pálmasonar 1922
1. janúar – sunnudagur
Það var messað á Ytri-Bægisá í dag, heldur fátt fólk við kirkju en sem allt kom þó inn þar og fékk kaffi. Siggi[1] á Neðri-Rauðalæk kom í dag með tvær ær og fékk hrút handa þeim.
8. janúar – sunnudagur
Ég fór út í Rauðalæk á mánudaginn með ána. Jóhann Ó. ætlar að vera á Gagnfræðaskólanum í vetur. Á þriðjudaginn fór Steindór fram í Neðstaland og fór með bréf sem ætlar að koma á póstinn. Svo fór mamma suður í Syðri-Bægisá og ég fór ofan að Hamri með tillag í félagið. Svo fór ég út í Bryta í dag með bók og fékk bækur aftur. Þorlákur er bókavörður[2]. Á föstudagskvöld kom Grímur[3] og var hér um nóttina og spiluðum við við hann þar til kl. var fjögur um nóttina. Svo daginn eftir kom stúlka sem var honum samferða og hafði gist í Kirkjubæ og fóru svo inneftir.
15. janúar – sunnudagur
Ekkert ber til tíðinda. Steindór fór í kaupstað í gær og kom í kvöld. Fór með Gránu og á henni skyr og seldi það á 65 aura pottinn og smér á 4 kr. kg, prjónaskó á 4 kr., sjóvettlinga á 75 aura og hálfsokka á 1,25 kr. Á fimmtudaginn var hann að baða suður á Syðri-Bægisá fé frá Ytri-Bægisá. Föstudaginn kom hann við að aka heyi neðan af Grásteinshól og heim að Ytri-Bægisá.
22. janúar – sunnudagur
Gestkvæmt hefur verið hér með meira móti þessa viku. Á mánudagskvöldið kom maður á gluggann, bauð gott kvöld og bað pabba að finna sig úti. Enginn þekkti manninn, það var þó Kristfinnur Guðjónsson[4] og var hann hér um nóttina, hélt svo áfram daginn eftir inneftir, var að leita sér lækninga. Svo kom hann aftir innanað í gærkvöld og var hér í nótt. Í dag fór hann svo og fram í dal áleiðis heim til sín og langaði mig til að fara með honum en það varð ekki. Á þriðjudaginn kom Siggi á Neðri-Rauðalæk til að sækja klút fyrir Önnu[5]. Sama dag komu þeir Þorlákur á Bryta og Árni í Steinkoti og voru að skoða kláðaskoðun. Eru þeir búnir að skoða í öllum hreppnum en hafa einskis orðið varir. Þeir komu hér inn og töfðu lengi. Þann dag kom líka Benedikt[6] Bægisárbóndi, sagði fréttir og bað svo um menn til að flytja hey og voru þeir við það Steindór allan bjarta daginn en Steini[7] stund seinnipartinn. Á fimmtudaginn kom Árni[8] á Rauðalæk með fundarboð og fór ég með það suður í Bægisá. Þann dag kom líka Tómas[9] á Björgum með að gamni sínu. Svo fór pabbi með honum út og ofan hjá Rauðalæk, fór svo heim þar og tók Önnu með sér og kom með hana hér uppeftir og hefur hún verið hér síðan og verður hér líka í nótt.
29. janúar – sunnudagur.
Í gær var fundur inni á Þinghúsi og fór pabbi þangað réðandi á Gránu sinni og er ekki kominn enn, ætlaði að gista á Grjótgarði. Lítið fréttist og fáir koma. Um þessar mundir er verið að leika «Fjalla-Eyvind» inni á Akureyri, þjóðfrægt leikrit. Á fimmtudaginn síðastliðinn var Flóru haldið. Gísli kom með bola.
5. febrúar – sunnudagur.
Í gær fórum við Jóhanna inn á Akureyri. Steindór fylgdi okkur á hrossum ofan að Krossastaðaá og gengum við þaðan. Laufey[10] á Rauðalæk var okkur samferða og fleira fólk var líka innfrá hér af Mörkinni. Svo vorum við á leiknum í gærkvöld, vorum svo innfrá í nótt og fórum svo heim í dag og kom Gunnar[11] frændi með okkur. Á miðvikudaginn fór Steindór inneftir með töðu á tveimur hestum fyrir Benedikt á Bægisá, kom aftur með síld fyrir pabba[12]. Mamma og Kári fóru með Steindór út á háls og svo fóru þau út að Gæsum. Varð Kári þar eftir en mamma fór út að Skipalóni og Björgum. Fóru þau svo heim á föstudaginn. Á föstudagsnóttina dó Guðmundur gamli á Björgum, gamall maður.
12. febrúar – sunnudagur.
Ekkert ber til tíðinda. Gunnar fór héðan á föstudaginn. Þá fór Steindór inn eftir með tvö reiðingshross, fór með skyr og smér og kom aftur með kornmat í gær. Kornmatur hefur mikið fallið í verði og margt fleira en sumt hefur stigið svo sem tóbak, kaffi og fleira.
19. febrúar – sunnudagur.
Lítið ber til tíðinda, mest er hugsað og talað um skattalögin og skýrslurnar sem þarf að útfylla. Á föstudaginn fór pabbi fram í Þúfnavelli til að sækja kaupið hans Kára. Í gær kom Jóhann[13] á Neðstalandi og batt undan Móra.
26. febrúar – sunnudagur.
Á fimmtudaginn kom frændi og tók tvo hesta af sverði fyrir Jón[14] í Koti. Þann sama dag kom Haraldur á Rauðalæk með töðu, 125 pund sem honum var lánað vorið 1920. Svo tók hann það sem hann átti hér. Á mánudag og þriðjudaginn ók Steini taði ofan á Rauðalækjartún. Í gær var einhver slæmska í Skjóna, héldu menn að það væri hrossasótt. Fór pabbi út í Rauðalæk og Vindheima og fékk stólpípu og skánaði honum heldur en er ekki góður enn. Páll[15] gamli á Krossastöðum datt í fyrri viku og rotaðist og beið af því bana. Vonandi líður honum betur þar sem hann er nú heldur en honum leið hér í heimi.
5. mars – sunnudagur
Á miðvikudaginn var Surtlu haldið. Þann sama dag um kvöldið kom Einar eftir beiðni og gerði upp skattaskýrslurnar og var hann hér um nóttina. Á fimmtudag fór pabbi fram í Efstaland ríðandi á Gránu. Það hefur verið stungið út úr húsum og ekið á völl og hefur Grána verið höfð fyrir sleðanum. Það á að verða ungmennafélagsfundur í kvöld úti í Ási.
12. mars – sunnudagur
Þá komu hér heim Brynjólfur og Laufey[16] á Steinsstöðum og Jón í Efstalandskoti, komu úr kaupstað og töfðu[17] hér lengi. Þá um kvöldið var skrall úti í Ási, var þar um 50 manns. Steindór og Jóhanna fóru út eftir, fauk af Steindóri hatturinn og fundu þeir hann aftur út í Fossárgili eftir langa leit. Skjóni hefur verið að hálfdrepast þessa viku alla en er nú heldur skárri. Ég fór út í Bryta í dag í bókaerindum.
26. mars
Á mánudaginn 13. bar svarta kvígan og gekk henni það illa en þó slysalaust, kálfurinn lifir. Fyrra föstudag kom Steingrímur B[18]. og dvaldi hér nokkra daga. Á laugardaginn fór ég fram í Efstaland með ull og bréf sem áttu að fara á póstinn. Þá um kvöldið kom Baldi S.[19] með bréf til mömmu og var hann hér um nóttina. Morguninn eftir var Skjóni búinn að fá í sig eitt kastið og átti að gefa honum einn skammt en enginn treysti sér til að koma honum ofan í hann. Fór ég þá fram í Neðstaland og fékk Jóhann og kom hann skammtinum ofan í klárinn en hann verkaði ekki svo annar var settur ofan í hann en hann hreyf ekki heldur og var svo hætt við það. Sama dag fór Steindór inn á Akureyri fyrir Harald á Rauðalæk og sótti Jóhann Botn[20](?) handa doðabelju. Pabbi fór svo úteftir með Skjóna og sagði Jóhann að það væri bara hrossasótt sem að honum gengi. Steindór fór svo inneftir með honum aftur. Á miðvikudaginn fór ég með Steingrími út í Rauðalæk og töfðum við þar lengi. Á fimmtudaginn fóru þau Steini og mamma inneftir með hross og komu heim aftur um kvöldið. Steingrímur fór með þeim. Pálmi [21]í Bakkaseli gisti hér á þriðjudagsnóttina.
12. apríl
Lítið ber til tíðinda. Ég var úti á Rauðalæk fjóra daga fyrir síðustu helgi og gerði úti fyrir Harald á meðan hann var á kaupfélagsfundinum. Steindór fór inn á Akureyri á mánudaginn með Gránu litlu og sleða og kom aftur um nóttina. Halldór[22] gamli á Skútum er dáinn fyrir nokkru og er búið að jarða hann. Hann var bóndi á Skútum og var búinn að búa þar lengi og orðinn fjörgamall maður. Haraldur skoðaði hér á föstudag 30. mars og gerði heyið hjá pabba 87 hesta úthey og 45 hesta töðu.
14. apríl
Ég fór í kirkju í dag og Jóhanna. Var 9 manns aðkomandi við kirkju og söng prestur hálfa messu. Tíðindalaust.
17. apríl. Páskadagur
Í gær kom Árni Júl. Haraldsson og tafði allan dag. Pabbi og mamma fóru til kirkju í dag, fór nokkuð margt fólk suður hjá í dag. Þau eru ekki komin enn svo ég veit ekki hvernig messan hefur gengið.
19. apríl. Síðasti vetrardagur
Veturinn er búinn og mega flestir minnast hans með hlýjum hug vegna góðviðra og snjóleysis. Hefur margt stráið verið sparað vegna þess, hefðu vafalaust orðið heyþrot almennt ef veðráttan hefði ekki leikið við. Alltaf hafa margir um sárt að binda eftir veturinn vegna ástvinamissis eða annarra orsaka sem ekki verður um flúið. Stærsta og mesta slysið var þegar Talisman fórst og með honum 12 menn, allir hér úr Eyjafirði. Fjórir menn komust af. Pétur Jónsson[23] ráðherra varð mörgum harmdauði o.fl. o.fl. Aftur eru aðrir með glaðar endurminningar eftir veturinn, það gengur svo til í heimi hér.
20. apríl. Sumardagurinn fyrsti
Besta veður hefur verið í dag, sunnanandi og þítt. Samt hefur verið frost í nótt en það er ekki nema betra því:
Frjósi saman fyrstu nótt
fargi enginn á né kú.
Gróðakonum gerist rótt,
gott mun verða undir bú.
Sumarið byrjar á góðu veðri og væri óskandi að sumarið færi eftir því. Menn eru yfirleitt glaðir og ánægðir það ég til veit þó það geti verið misjafnt því að það ”dregst margur með djúpa und þótt dult fari”. Þegar menn óska hver öðrum gleðilegs sumars þá athuga menn það sjaldan hvað mikið er innifalið í þeim orðum og eru þau venjulega notuð eingöngu fyrir siðasakir eða það álít ég og er það illt til að vita því ef það væri gert af heilum hug þá er ekki að vita hvað mikla þýðingu það gæti haft því heillaóskir og fyrirbænir, þar sem hugur fylgir máli, er það besta veganesti sem nokkur maður getur haft en því er miður að slíkar óskir og bænir eru oftast eingöngu viðhafðar til málamynda og fyrir siðasakir manna á meðal. Nú byrjar eitt sumar enn og vildi maður óska að það yrði arðsamt og heillaríkt líkamlega og andlega fyrir menn, bæði til lands og sjávar. En þó það verði ekki eins og skammsýnir menn helst kjósa þá ber mönnum að taka því öllu með þökkum því jafnvel hið illa styður sigur hins góða.
27. apríl
Þann dag kom Valdemar[24] á Kotum og tafði dálitla stund, sagði að amma hefði klætt sig fyrst á páskadaginn en er mesti bjálfi. Pabbi fór ofan að Hamri þann dag og fékk Rósant[25] til að járna Bleik og Gránu. Jósavin[26] kom og Rósant járnaði fyrir hann líka. ... Pabbi fór fram í Efstaland ríðandi á Bleik.
6. maí
Pabbi fór í kaupstað á mánudag síðasta með Bleik og Gránu. Sama dag kom Árni á Vöglum. Um kvöldið kom Sigvaldi[27] í Byrgi og var hér um nóttina. Hann var að biðja um hey og var honum lofað hesti af töðu og öðru eins af útheyi. Hann tók 30 pund af töðu. Stúlkurnar hafa verið við hreingerningar.
13. maí
Allar skepnur eru inni í húsum hér en víða liggur fé úti, ærnar áttu að byrja að bera í gær en engin er borin enn, það er búið að mala[28] hér á öllu túninu og mest á Steinatúni[29]. Ofurlítið búið að herfa. Hingað og þangað hafa verið haldin uppboð og hafa ær verið keyptar á 48 til 60 kr.
23. maí
24 ær bornar og 11 tvílembdar. Ein ær dó í gær úr garnaflækju frá 2 lömbum. Tvö lömb hafa dáið sem pabbi átti og eitt sem Steini átti. Gemlingarnir hafa legið úti nokkrar nætur en engin ær enn því það lítið sem gróður sást þá hefur hann alveg horfið aftur. Pabbi fór í kaupstað í morgun með hest og kerru.
18. júní
Tíðin hefur verið fremur mislynd í allt vor. Fram um hvítasunnu voru sífelldir kuldar svo varla var dagamunur enda gróðurlítið. Samt var búið að sleppa öllum sauðskepnum og sumstaðar fyrir löngu enda sjálfgert vegna heyleysis. Í síðasta hálfa mánuðinum hafa oft komið hlýir dagar þó oft hafi verið kalt og úrkomur miklar. Það er kominn talsverður þeli í tún en fremur lítið í úthaga. Kýr voru látnar út um hátíð víðast hvar og víðast var búið að auða tún um það leyti. Skepnuhöld hafa verið og eru góð eftir því sem menn segja þó illa liti út um tíma. Inflúensa og vesöld er að ganga um þessar mundir og heldur sumu fólki frá vinnu, þó eru ekki mikil brögð að því ennþá.
Anna Sigurðardóttir[30] á Neðri-Rauðalæk dó í gær eftir að hafa legið rúmföst í viku. Fékk hún þessa inflúensu og af því að hún var svo veil fyrir þoldi hún ekkert. Pabbi hefur verið niðurfrá af og til þessa síðustu daga og var hann kominn ofaneftir og ætlaði að fara að fara af stað eftir lækni en þá dó hún rétt á eftir. Hún var búin að vera hér til heimilis í 6 ár og hefur oft komið hér síðan og verið tíma í einu og seinast núna í vor var hún hér á aðra viku.
Nýlátin er í Stóra-Dunhaga Hulda Árnadóttir[31], dóttir bóndans þar. Var hún búin að vera veik langan tíma. Hún dó úr tæringu, mun hafa verið á tvítugsaldri.
Í gær var efnt til mikillar hátíðar á Akureyri. Fór fólk hér af hverjum bæ en ekkert hef ég frétt af því[32]. Stendur önnur til á morgun.
25, júní
Í vikunni hefur verið tekinn upp svörður, borinn út og klofinn, rist torf og pælt í flagi. Búið að hreinsa túnin og bera af að mestu leyti. Fyrsti dagurinn í dag sem kúnum hefur ekki verið gefið.
9. júlí
Tíðin alltaf svipuð. Dæmafáir kuldar svo gamlir menn þykjast ekki muna eftir slíku. Þar af leiðir slæm grasspretta og af grasleysinu hungur á skepnum og ómögulegt að byrja að slá. Það á að reka hér saman á morgun til rúnings. Var búið að ákveða hann fyrr en var frestað vegna ótíðar. Skepnur víða verr fylldar en vanalega. Nú er byrjað að lengja póstveginn. Hjá Krossastöðum er búið að vera við hann í hálfan mánuð. Við Steindór höfum verið við það þessa viku alla, höfum verið á Vöglum á næturnar. Alls erum við búnir að vinna þar 15 dagsverk. Steini 3, kaup 6.00 kr. Flestir hafa menn verið þar 26. Anna sáluga var jörðuð fyrra fimmtudag að viðstöddum um 30 manns, fóru allir hér úr bæ.
16. júlí
Þessi vika hefur gengið í sífelldu vafstri, fyrst við samanrekstur, þá ullarþvott og síðast í gær í að fara með ullina til borgarinnar. Við Steindór byrjuðum ögn að slá á föstudaginn, bráðónýtt engi, örfáir byrjaðir að slá.
Tvær kerlingar voru fluttar vestan úr Skagafirði núna í vikunni. Eru þær hrepplægar hér, önnur heitir Karítas[33] og er móðir hinnar. Hin heitir Svafa og hefur verið heilsulaus alla sína ævi. Þær eiga að vera á Neðri-Rauðalæk næsta ár og eru komnar þangað.
13. ágúst
Hlýindatíð hefur verið þennan þriggja vikna tíma síðasta. Þá hefur ekki rignt mikið fyrr en nú þessa síðustu sólarhringa. Nýlega búið að slá tún, víðast en óvíða búið að hirða. Hér eru úti í bólstrum 10 hestar af töðu, ofurlítið byrjað að slá á engi. 18 hestar fengust af útheyi fyrir völl. Annars hefur heyskapurinn gengið heldur vel svo ekki þarf undan honum að kvarta.
Samkoma var haldin út og niður í Skriðuhólma síðastliðinn sunnudag að tilhlutun Ums. Kynningar[34]. Voru þar sýndar íþróttir svo sem hlaup, stökk, glímur, knattspyrna. Reyndir hestar og haldnar ræður. Dans. Óskaplegur mannfjöldi þar saman kominn svo enginn kunni að telja.
1. október
Heyskapur er almennt hættur fyrir viku síðan og varð heyskapur víðast með minnsta móti, sumstaðar mikið minni en óvíða góður. Sumstaðar liggja hey undir fönn, þá helst á útkjálkum. Heyskapur varð hér hjá pabba 95 hestar taða og 160 hestar úthey en hjá Steina og Jóhönnu 30 hestar taða og 90 hestar úthey. Sláturtíð stendur nú yfir og gengur hún venju fremur illa vegna þess að illa lítur út með sölu á afurðunum og slátur og mör nær óseljanlegt. Pabbi er búinn að reka inneftir um 50 sem hann átti og 20 sem aðrir áttu hér á heimilinu.
14. október
Rúm vika síðan vegabótin hætti, vann ég þar í 16 daga og fékk 112 kr, Steindór 8 daga og fékk 56 kr. Síðan höfum við verið að pæla í flagi. Hér á dögunum kom sú frétt að eldur væri uppi í Vatnajökli en engar áreiðanlegar fregnir hafa enn borist um það.
Nýlega dó drengur, sonur Sigurjóns í Ási, úr heimakomu[35], var hann jarðaður í gær.
Nú er sumarið liðið og ber margs að minnast þess sem liðið er og þó mönnum finnist það hafa verið erfitt þá er þó sá ávöxtur sem undan sumrinu er að öllum líkum ?farsæll? og ekki hefur þó allt verið illt.
[1] Sigurður Sveinbjörnsson (1896-1969), hálfbróðir Tryggva (Sigtryggs) föður Maríu skv. sóknarmannatalinu en ekki verður séð að Sigtryggur hafi átt neinn bróður.
[2] Lestrarfélag Bægisársóknar var til frá því um aldamót en fundargerðir félagsins eru til frá 1913 en frá 1925 hét félagið Lestrarfélag Þelamerkur enda gátu þá íbúar á allri Mörkinni verið félagar. Ágrip af sögu Lestrarfélags Þelamerkur eftir Frímann Pálmason 1935-1963 er til á Héraðsskjalasafni og félagið hefur verið til 1969.
[3] Líklega Grímur Benedikt Valdemarsson (1898-1986) smiður á Akureyri, bróðir Péturs á Rauðalæk. Grímur er hér að koma vestan úr Blönduhlíð á leið til Akureyrar. Grímur efnaði niður í bókahillurnar mínar 1974 sem hafa fylgt mér síðan. Grímur var systursonur Helgu ömmu.
[4] Kristfinnur (1896-1974) síðar ljósmyndari á Siglufirði hafði verið "niðursetningur" hjá Steinunni langömmu og Guðmundi langafa en ólst mest upp hjá Arnbjörgu dóttur þeirra vestur á Fremrikotum.
[5] Anna Sigríður Sigurðardóttir (1855-1922), Anna stóra sem var húskona í Garðshorni um tima. Þær Steinunn langamma voru systkinabörn.
[6] Benedikt Einarsson söðlasmiður flutti ekki í Bægisá fyrr en 1934 skv. sóknarmannatali en Byggðir Eyjafjarðar 1990 segja að hann hafi búið þar 1916-1938 og þar segir líka að hann hafi átt heima á Akureyri til 1937. Dagbókin segir reyndar frá Benedikt og systrum hans a Bægisá í janúar 1933 og margt bendir til að Bensi hafi verið með einhvern búskap á Bægisá á meðan hann var heimilisfastur á Akureyri.
[7] Kristján Steinstrup Jónsson (1891-1984), Steini, var trúlofaður Jóhönnu í Garðshorni, var vinnumaður þar en með búskap á Neðri-Rauðalæk þangað til þau fluttu út í Laugaland þar sem þau bjuggu 1923-1925.
[8] Árni Júlíus Haraldsson, síðar bóndi á Hallfríðarstöðum.
[9] Tómas Jónsson (1873-1930) sonur Jóns Júlíusar Andréssonar frá Syðri-Bægisá. Tómas og Helga amma systkinabörn.
[10] Laufey Jóhannsdóttir (1876-1927) kona Haraldar Pálssonar bónda á Rauðalæk.
[11] Hver var þessi Gunnar frændi? Tveir koma til greina, Gunnar Valdemarsson (1907-1975) á Kotum en þó frekar Gunnar Jóhann Valdemarsson (1900-1989) bróðir Gríms og Péturs á Rauðalæk.
[12] Hér er Pálmi afi ennþá bóndi í Garðshorni sem hann var til ársins 1925. Þá var Steini (Kristján Steinstrup Jónsson) bóndi 1925-1927 og síðan bræðurnir Steindór og Frímann 1927-1942 í félagsbúi, Steindór oftar skráður bóndi framan af. Á árunum 1942-1946 var búinu skipt. Steindór var með vetrarmenn á sínum hluta en vann mikið annarstaðar. Frá 1946 var Frímann einn bóndi í Garðshorni til 1973.
[13] Sigurður Jóhann Sigurðsson (1872-1953) bróðir Rósants á Hamri, Jóhannesar í Engimýri og þeirra systkina. Ekki er vitað hvað það þýðir að hann hafi bundið undan Móra.
[14] Jón Jónsson (1866-1939) bóndi í Efstalandskoti, giftur Jóhönnu systur Jóhanns á Neðstalandi, Rósants á Hamri (áður Efstalandi) og þeirra systkina. Frændi sem sótti tvo hesta af sverði var Frímann afabróðir.
[15] Páll Gíslason (7.6.1853-18.2.1922) vinnumaður og síðar próventumaður hjá Jóni á Krossastöðum frá 1890 og e.t.v. lengur.
[16] Brynjólfur Sveinsson (1888-1980) og Laufey Jóhannsdóttir (1892-1950) bændur á Steinsstöðum og síðar í Efstalandskoti. Brynjólfur og Pálmi afi voru þremenningar út af Bensa í Flöguseli.
[17] Sögnin að tefja merkir ekki að tefja fyrir heldur að dvelja, standa við.
[18] Steingrimur Baldvinsson (1894-1985) á Búðarhóli í Ólafsfirði. Guðrún móðir hans var systir og fósturmóðir Helgu ömmu.
[19] Baldvin Sigvaldason (1894-1974) sem hafði verið vinnumaður á E-Rauðalæk 1910 en var daglaunamaður á Sólheimum í Svínadal, A-Hún. 1920. Síðast verslunarmaður í Reykjavík. Bróðir Rósants í Ási.
[20] Jóhann þessi virðist hafa verið dýralæknir eða dýralæknisígildi
[21] Pálmi Halldórsson (1902-1989) bróðir Ásgríms í Hálsi, síðar smiður á Akureyri.
[22] Halldór Stefánsson (1843-1922), lengst bóndi á Skútum.
[23] Pétur Jónsson (1858-1922) frá Gautlöndum, atvinnuvegaráðherra 1920-1922.
[24] Valdemar Guðmundsson (1878-1966) bóndi á Fremrikotum og Bólu, giftur Arnbjörgu systur Pálma afa. Hér hefur Steinunn langamma dvalið um tíma hjá Arnbjörgu dóttur sinni á Fremrikotum.
[25] Rósant Sigurðsson (1865-1947) bóndi á Hamri, faðrir Þorleifs og bróðir Jóhanns á Neðstalandi og þeirra systkina
[26] Jósavin Guðmundsson (1888-1938) bóndi á Miðhálsstöðum og síðar á Auðnum, faðir Gunnars í Búðarnesi og þeirra systkina
[27] Sigvaldi Baldvinsson (1864-1937) áður bóndi á Neðri-Rauðalæk, nú í Glerárþorpi. Faðir fyrrnefnds Baldvins og Rósants í Ási.
[28] Sauðatað var malað í taðvél/taðkvörn og því dreift á tún, loks herfað niður í moldina sem áburður.
[29] Líklega hefur Steini - Kristján Steinstrup - sléttað þennan blett sem hefur verið kenndur við hann, sbr. Steindórsblettinn, en ekki er vitað hvar Steinatúnið var. Steini var í Garðshorni þessi ár, þá nýtekinn saman við Jóhönnu Guðrúnu Pálmadóttur.
[30] Eins og áður hefur komið fram voru þær Steinunn langamma og Anna systkinabörn.
[31] Berklar voru landlægir í þessum sveitum á þessum tíma og mörg dæmi um ungt fólk sem lést úr tæringu.
[32] Þessi setning segir mikið um stöðu pabba á heimilinu. Það kemur reyndar ekki fram að annað fólk í Garðshorni hafi sótt hátíðarhöldin en oft voru afi og Steindór út og suður um sveitir á meðan pabbi var heima og sá um bústörfin.
[33] Karítas Magnúsdóttir (1853-1937) og Svafa Sigríður Þorsteinsdóttir (1886-1968). Karítas fæddist og var lengi í Öxnadal, giftist Þorsteini Þorlákssyni (1853-1887) og átti með honum þetta eina barn. Þau áttu heima á Efri-Vindheimum þegar hann dó. Eftir það var hún um tima með dóttur sína vestur í Skagafirði. Hún dó á Laugalandi en Svafa í Glæsibæjarhreppi, ekki er vitað á hvaða bæ.
[34] Kynning var samstarfsvettvangur ungmennafélaganna í núverandi Hörgársveit. Önnur svipuð samkoma var haldin á Skógabökkum í júlí 1925 en Skriðuhólmar hafa líklega verið vestan við Hörgána og litlu norðar, sennilega á félagssvæði Ungmennafélags Möðruvallasóknar. Pabbi getur þess ekki að hann hafi sótt samkomuna en líklega hefur svo verið.
[35] Bráð húðsýking af völdum bakteríu. "Áður fyrr var heimakoma hættulegur sjúkdómur sem gat leitt til alvarlegra veikinda og jafnvel dauða en nú á tímum öflugra sýklalyfja er sjúkdómurinn oftast auðlæknanlegur."